Vistlegra og fallegra umhverfi er að verða mun stærri liður í ákvarðanatöku íbúa um val á heimili og bæjarfélagi. Kannanir sem við gerðum í upphafi okkar umhverfisátaks, fyrir 4 árum síðan, sýndu að auk menntunartækifæra, atvinnu og úrvals í þjónustu skipti hreint og vistlegt umhverfi mestu um val á framtíðarbúsetu. Umhverfismál kalla á sérfræðiþekkingu. Við hreinsun umhverfis, sem getur verið alvarlega mengað, eða þar sem hreinsa skal þunga hluti, þarf fagþekkingu og búnað við hæfi. Reykjanesbær leitaði því eftir samstarfi við reynda aðila á þessu sviði, þ.á.m. Bláa herinn, sem hefur sérþekkingu á hreinsun við sjávarstrendur.
Reykjanesbær leitaði því eftir samstarfi við reynda aðila á þessu sviði, þ.á.m. Bláa herinn, sem hefur sérþekkingu á hreinsun við sjávarstrendur. Blái herinn hefur stjórnanda og sjálfboðaliða með staðgóða þekkingu og brennandi áhuga á að bæta umhverfi strandlengjunnar við Ísland. Markmið okkar fyrsta árið var að safna 100 tonnum af járnarusli úr jarðvegi nærri iðnaðarrekstri og úr fjörunum meðfram Keflavík, Njarðvík og Höfnum á Reykjanesi. Afraksturinn varð rúmlega 1000 tonn. Árið eftir var átakinu fylgt eftir með sambærilegum hætti og árangri. Næstu ár á eftir sýndu að enn var þörf á hreinsun þótt Grettistaki hafi verið lyft í þessum þætti umhverfismála á aðeins örfáum árum.
Blái herinn og forsvarsmaður hans, Tómas Knútsson, hafa fengið verðskuldaða viðurkenningu fyrir einstakt framlag sitt hér á landi. Vinna Bláa hersins hefur einnig náð athygli alþjóðasamfélagsins. Nú eru aðstæður til að sækja fram og bjóða fleiri sveitarfélögum til samstarfs. Forsvarsmenn Bláa hersins eiga þá hugsjón að strendur allra sveitarfélaga verði hreinsaðar af aðskotahlutum sem þar hafa safnast í tímans rás. Þeir byggja á sjálfboðastarfi sem stutt er framlögum fyrirtækja í umhverfishreinsun á landi. Átaksverkefnið í Reykjanesbæ hefur því kostað bæjarfélagið afar lítið úr bæjarsjóði. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að sveitarfélag, sem hefur áhuga á að nýta þessa þekkingu Bláa hersins, tengja hana fyrirtækjum sem sérhæfa sig í hreinsun á landi og vilja á sama hátt sýna stuðning við umhverfið, nái sambærilegum árangri og við náðum í Reykjanesbæ á örfáum árum.
Árni Sigfússon bæjarstjóri