Blái herinn eru umhverfisverndarsamtök sem leggja áherslu á baráttuna við plastmengun í hafinu með hreinsunarstörfum, hvatningu og vitundarvakningu.
Blái herinn hóf störf árið 1995 og varð formlega frjáls félagasamtök árið 1998. Stofnandi samtakanna er Tómas J. Knútsson fæddur í Keflavík árið 1957. Tómas hefur unnið sem vélvirki, slökkviliðsmaður, sjúkraflutningamaður, sportköfunarkennari og eiturefnatæknir. Hann hóf að stunda sportköfun árið 1975 en áhugi hans á umhverfistengdum verkefnumi hófst fyrir alvöru í sportköfunnarkennaranámi hjá PADI árið 1991 um það leyti sem umhverfisdeildar PADI var stofnuð – Project Aware.
Frá stofnun hefur Blái herinn verið fremstur í flokki í hreinsun stranda, hafna, lóða fyrirtækja og fleira á Íslandi. Á tímabilinu hafa farið yfir 76000 vinnustundir í meira en 300 verkefni með 9600 sjálfboðaliðum sem hreinsað hafa yfir 1550 tonn af rusli úr náttúru Íslands.
Blái herinn er meðlimur alþjóðlegu umhverfisverndarsamtakanna Lets Do It world sem stýrir Alheimshreinsunardeginum (World Cleanup Day) í september ár hvert.
Blái herinn var ásamt Landvernd tilnefndur til norrænu umhverfisverðlaunanna 2018 fyrir verkefnið Hreinsum Ísland. Blái herinn stýrir núna strandhreinsunarlegg verkefnisins.
Tómas var sæmdur riddakrossi hinna Íslensku Fálkaorðu í janúar síðastliðin fyrir framlag sitt á vettvangi umhverfisverndar.
Með fylgir viðtal sem birt var í Víkurfréttum 13. janúar 2019
Framtíðin verður að vera umhverfisvæn
Fálkaorðuhafinn Tómas Knútsson hefur marga fjöruna sopið
Ellefta stundin er runnin upp og hlutirnir verða að breytast hratt. Umhverfið öskrar á okkur sem aldrei fyrr um að við breytum umgengni okkar við náttúruna. Veðurfarið sýnir okkur þetta glöggt þessa dagana. Náttúruvernd þolir enga bið segja sérfræðingar.
Það má líklega kalla Tomma hermann hafsins því hann er þekktur fyrir ákafa sinn og eldmóð í hreinsun hafsins. Hann er óþreytandi að breiða út fagnaðarerindið um að við verðum öll að taka ábyrgð á ruslinu sem fundist hefur bæði á hafsbotni og við strendur landsins frá árinu 1995, þegar hann ásamt nemendum sínum í Sportköfunarskóla Íslands ákváðu að stofna Bláa herinn til að hreinsa upp allt ruslið sem þau fundu þegar þau voru að kafa í sjónum við strendur landsins. Þvílíkt rusl sem hafði safnast þarna í gegnum árin. Þeim var misboðið að sjá allt mannanna rusl og tóku til sinna ráða. Síðan þá hefur Blái herinn barist fyrir hreinsun hafsins við misjafnar vinsældir í upphafi en sem tíminn hefur nú leitt í ljós að ekki var vanþörf á að taka til hendinni.
Tómas Júlían Knútsson heitir maðurinn en hann naut þess heiðurs á nýársdag að vera krýndur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af herra Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrir framlag sitt til umhverfisverndar á Íslandi. Tómas er vel að þessum heiðri kominn.
Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni með því að smella hér.